Stækkaðu framtíðina verkefnið hefur gengið langt fram úr væntingum á þessu vori, þar sem þátttaka og viðbrögð hafa verið stórkostleg. Rúmlega 800 sjálfboðaliðar hafa skráð sig til leiks, og hópurinn er jafn fjölbreyttur og hann er stór. Á tímabilinu í apríl og maí fóru fram prufuheimsóknir í fjölmarga skóla um allt land, í þeim skólum sem buðu sig fram til að taka þátt í þróunarfasa verkefnisins. Heimsóknirnar vöktu mikla ánægju bæði meðal sjálfboðaliða og skóla, og er þeim þakkað innilega fyrir frábærar móttökur og samvinnu.
Sjálfboðaliðarnir, sem koma úr ólíkum geirum vinnumarkaðarins, hafa fengið einstakt tækifæri til að deila reynslu sinni með nemendum og kynna þeim spennandi möguleika framtíðarinnar. Skólar um land allt hafa einnig sýnt verkefninu mikinn áhuga og metnað, og nemendur fengu dýrmæta innsýn í fjölbreytt störf og leiðir sem liggja framundan.
Nýtt vefkerfi og spennandi framtíð
Næstu skref í verkefninu eru að sjálfsögðu ekki síður spennandi. Í haust verður opnuð ný og sérsmíðuð vefgátt fyrir Stækkaðu framtíðina, sem mun einfalda og bæta tengslin milli skóla og vinnumarkaðarins enn frekar. Um leið verður einnig ný vefsíða opnuð, sem mun gera kennurum, námsráðgjöfum og fagfólki úr atvinnulífinu kleift að vinna saman á enn markvissari hátt. Með þessari nýjung verður verkefnið opnað fyrir alla grunn- og framhaldsskóla landsins, og munu nemendur víðs vegar um landið njóta góðs af.
Við höfum fengið gríðarlega jákvæð viðbrögð frá bæði sjálfboðaliðum og skólum sem tóku þátt í heimsóknum vorsins. Hér er brot af því sem nokkrir sjálfboðaliðar höfðu að segja eftir sínar heimsóknir:
„Krakkarnir veita mér eflaust meiri innblástur en ég veiti þeim. Stækkum framtíðina er frábært verkefni sem ég vildi að hefði verið til þegar ég var yngri.“
„Held að margir fullorðnir sem eiga ekki í reglulegum samskiptum við börn myndu alveg galopnast á svona heimsókn, koma meyr og mjúk og glöð út út. Með ferska sýn á starf sitt og líf.”
„Ég er svo heppin að vera í stöðugu samtali við börn í tengslum við mína vinnu, en mér tókst nú samt að fá spurningar sem ég hef aldrei fengið og gáfu mér nýja sýn á starfsumhverfi mitt.”
„Það var skemmtilegt að velta því fyrir sér í undirbúningi heimsóknar hvaða fög mér þóttu skemmtilegust í grunnskóla og merkilegt að sjá hversu vel þau tengjast og nýtast mér í mínu starfi í dag.”
„Ég get sagt fyrir mitt leiti að ég hef mjög gaman að því að miðla minni reynslu og ástríðu til ungs fólks og hef sérstakan áhuga á því vegna þess að ég man hversu ráðviltur ég var sjálfur á þessum aldri og hefði tekið svona kynningum fagnandi.“
„Það var ofsalega gaman að hitta krakkana og fá óheftar spurningar. Ég sjálfur fékk rangar upplýsingar um draumastarfið mitt þegar ég var í grunnskóla sem ýtti mér tímabundið af leið og því nýt ég þess að koma réttum upplýsingum á framfæri til krakka sem dreymir um að starfa við það sama og ég.“
Við hlökkum til komandi skólaárs og enn frekari þátttöku sjálfboðaliða í því að stækka framtíðina með nemendum landsins.