Nemendur sem fá starfskynningar á unglingastigi í grunnskóla fá bæði hærri einkunnir og hafa meiri metnað fyrir náminu. Þetta kemur fram í breskri rannsókn frá 2019 sem gerð var á 650 ungmennum á aldrinum 14-16 ára og náði til fimm skóla.
Þátttakendum var skipt í tvo hópa og tók annar hópurinn þátt í kynningum sem standa nemendum þegar til boða í skólunum en hinn hópurinn tók þátt í þremur starfskynningum til viðbótar. Starfskynningarnar voru haldnar af sjálfboðaliðum af vinnumarkaði sem höfðu verið sérstaklega beðnir um að tala um tengsl milli námsframvindu og starfstækifæra. Rannsóknin var framkvæmd á einu skólaári og fór þannig fram að væntanlegum eða líklegum einkunnum nemenda var safnað saman og þær voru síðan bornar saman við raunverulegar einkunnir þeirra úr GCSE prófum. GCSE próf eru samræmd próf í Bretlandi sem lögð eru fyrir 15 og 16 ára nemendur þegar skyldunámi þeirra er að ljúka og þykja stór áfangi á skólagöngu þeirra.
Nemendur öðlast meiri trú á eigin getu
Niðurstöðurnar sýndu að þeir nemendur sem tóku þátt í fleiri starfskynningum fengu hærri einkunnir á GCSE prófum en búist hafði verið við. Flestar einkunnirnar hækkuðu lítillega fyrir utan einkunnir í ensku sem hækkuðu rúmlega tvöfalt meira en einkunnir í öðrum fögum.
Einnig var lögð könnun fyrir nemendur þar sem þeir gátu komið á framfæri skoðunum sínum á starfskynningunum og tekið fram hvort þær hefðu hjálpað þeim við val á eða breytt sýn þeirra á ákveðið nám eða starf.
Niðurstöðurnar leiddu í ljós að þeir nemendur sem tóku þátt í þremur starfskynningum aukalega höfðu meiri trú á eigin getu, sáu meiri tilgang með námi sínu, og höfðu jafnframt meiri trú á að þeir gætu uppfyllt drauma sína um starfsframa. Auk þess breyttu 7% nemendanna framtíðarplönum sínum og 20-28% sögðust hafa velt náms- og starfsvali sínu betur fyrir sér.
Mest áhrif á hóp áhugaminni nemenda
Fleiri starfskynningar ýttu einnig undir metnað nemenda fyrir náminu en þeir nemendur sem fengu fleiri starfskynningar vörðu að meðaltali 9% meiri tíma í heimalærdóm.
Starfskynningarnar höfðu mest áhrif á þá nemendur sem höfðu lítinn áhuga á náminu og spáð var lakari árangri í GCSE prófunum. Þeir sýndu fram á 32% lengri tíma við heimavinnu en þeir sem spáð var háum einkunnum; þeir juku heimavinnu sína aðeins um 10%.
Ávinningur starfskynninga fyrir börn og ungmenni getur því verið mikill og hjálpað þeim að sjá aukinn tilgang með námi sínu, sjá tengingu þess við atvinnulífið og þar með ýtt undir seiglu nemenda í námi.
Heimildir
Motivated to achieve: How encounters with the world of work can change attitudes and improve academic achievement / Education and Employers