Taktu þátt í Okkar framtíð

Okkar framtíð – næsta skref Stækkaðu framtíðina – er farið af stað. Okkar framtíð er könnun sem ætluð er öllum grunnskólabörnum á landinu. Með könnuninni viljum við skoða drauma barna og væntingar þeirra til framtíðarinnar, starfsframa og menntunar. Einnig verða skoðuð áhrif mismunandi þátta í lífi barnanna á framtíðarsýn þeirra, til dæmis áhrif skóla, fjölskyldu, búsetu og samfélagsmiðla til þess að sjá hvað hefur áhrif á val þeirra eða hindrar þau í að fylgja draumum sínum.

Teiknaðu framtíðina og Þín rödd

Könnuninni er skipt í tvo hluta til þess að laga hana að ólíkum aldurshópum og ná sem best til barnanna. Teiknaðu framtíðina er ætluð börnum í 1.-7. bekk og felst í því að þau teikna myndir af því sem þau vilja verða og svara stuttum spurningum út frá teikningunum um væntingar sínar og áhrifavalda. Hins vegar munu börn í 8.-10. bekk svara rafrænni könnun sem heitir Þín rödd þar sem þau fá tækifæri til að skrifa um áhugamál sín, drauma og mikilvæg málefni. Sum þeirra munu einnig búa til myndbönd tengd málefnunum. Báðir hlutar könnunarinnar eru byggðir á alþjóðlegum ramma þróuðum af rannsóknardeild Education and Employers, en það eru samtök sem standa að Inspiring the Future, breskri fyrirmynd Stækkaðu framtíðina.

Markmiðið er að ná til allra barna á landinu

Könnunin verður send til allra grunnskóla á landinu og er markmið okkar að ná til allra barna í 1.-10. bekk. Með þessu vonumst við til þess að safna mikilvægum upplýsingum um hvað skiptir börn og ungmenni mestu máli þegar þau horfa til framtíðar. Teiknaðu framtíðina hefur verið lögð fyrir um 20.000 nemendur á yngsta stigi grunnskóla í 20 löndum víðs vegar um heiminn en með Okkar framtíð verður Ísland fyrsta landið til að safna svörum nemenda á öllum stigum grunnskóla.

Niðurstöðurnar munu veita mikilvæga innsýn í framtíðarsýn barna og unglinga, gagnast við stefnumótun í menntamálum og styðja vinnumarkaðinn í að mæta starfsvæntingum þeirra. Með niðurstöðunum má bera saman væntingar barna og unglinga við framtíðaratvinnuþróun á vinnumarkaði og skoða málefni eins og heilsu, fjölskyldu, jafnrétti og samfélagslegar áskoranir. Niðurstöðurnar verða kynntar opinberlega ásamt sýningu á teikningum, textum og myndböndum nemenda.

Við hvetjum alla grunnskóla landsins til að taka þátt og gefa nemendum í 1.-10.bekk tækifæri til að tjá sig um framtíð sína og segja frá því sem skiptir þau mestu máli. Við viljum heyra frá öllum börnum og ungmennum – því hugmyndir þeirra, vonir og áskoranir eru lykillinn að því að skapa betri framtíð fyrir okkur öll.

Allar frekari upplýsingar um framkvæmd könnunarinnar má nálgast á vefnum okkar, undir Okkar framtíð.