Búseta hefur áhrif á starfsáhuga

Tvær íslenskar rannsóknir á nemendum í 9. og 10. bekk grunnskóla og í framhaldsskóla sýna að marktækur munur er á viðhorfum barna og unglinga til mismunandi starfa eftir búsetu. Munurinn felst ekki eingöngu í þeim störfum sem þau hafa áhuga á að starfa við í framtíðinni heldur einnig í virðingu sem þau bera fyrir ólíkum störfum og starfsgreinum.

Mesti munur á starfsáhuga milli höfuðborgarsvæðisins og sjávarþorpa

Í annarri rannsókninni var búsetu barna og ungmenna skipt niður eftir því hvort þau bjuggu á höfuðborgarsvæðinu, í stærri bæjum (> 1500), þorpum eða sjávarþorpum (< 1500), eða í dreifbýli. Þátttakendur komu úr 21 grunnskóla og 22 framhaldsskólum víðsvegar um landið. Jafnframt var áhuga þátttakenda skipt niður í sex áhugasvið og 28 undirsvið eftir eðli starfanna.

Ekki var munur á öllum áhugasviðum eftir búsetu en athyglisvert er að mestur munur mældist á þeim áhugasviðum sem tilheyra handverkssviði eða eru á mörkum handverks- og skipulagssviðs. Þannig mældist áhugi á ræktun og búskap, vélum og akstri, sjávarútvegi, raf- og byggingargreinum, björgun og löggæslu og eignaumsjón mestur hjá ungmennum í dreifbýli. Einnig mældist meiri áhugi meðal ungmenna í sjávarþorpum á sjávarútvegi, eignaumsjón og björgun og löggæslu heldur en hjá ungmennum á höfuðborgarsvæðinu. Munur á starfsáhuga var mestur milli þeirra sem bjuggu í sjávarþorpum annars vegar og á höfuðborgarsvæðinu hins vegar.

Höfuðborgarsvæðið sker sig úr

Þegar litið er til höfuðborgarsvæðisins mælist einungis hærri áhugi þar en hjá öðrum búsetuflokkum á undirsviðunum viðskipti og rekstur og fjölmiðlun. Að þessum tveimur sviðum undanskildum mælist áhugi barna og ungmenna á höfuðborgarsvæðinu alltaf lægstur af öllum búsetuflokkum. Það gæti meðal annars stafað af því að á höfuðborgarsvæðinu er minni þekking og bein tenging við atvinnulífið en í fámennari bæjarfélögum eða að fleiri störf séu í boði á höfuðborgarsvæðinu og áhugi barna og ungmenna þar dreifist því á fleiri svið.

Ungmenni í Reykjavík bera meiri virðingu fyrir störfum

Í hinni rannsókninni var skoðaður munur milli ungmenna í Vesturbæ Reykjavíkur og Vestmannaeyjum. Þar komu einnig fram tengsl milli hugsunar um líkleg framtíðarstörf og búsetu. Ungmenni í Reykjavík stefndu frekar á störf í flokki stjórnenda, sérfræðinga og sérmenntaðs starfsfólks en ungmenni í Vestmannaeyjum sýndu skrifstofu- þjónustu- og verslunarstörf og iðnaðar- og verkavinnu meiri áhuga.

Í þeirri rannsókn kom jafnframt fram að unglingar í Vesturbæ Reykjavíkur bera meiri virðingu fyrir störfum en jafnaldrar þeirra í Vestmannaeyjum. Þátttakendur voru spurðir út í viðhorf við 18 störfum og mældist marktækur munur á virðingu fyrir 12 þeirra. Af þeim sex störfum sem nutu jafn mikillar virðingar tengjast fimm þeirra sjávarútvegi; skipstjóri, fiskiðnaðarmaður, háseti, vélstjóri og sjómaður. Sjötta starfið var bifvélavirkjun.

Starfsþekking og starfsáhugi fylgjast að

Skýringuna á muninum á áhuga eftir búsetu má ef til vill rekja til þess að í minni bæjarfélögum og dreifbýli verður atvinnulíf aldrei jafn fjölbreytt og í stærri bæjarfélögum eða á höfuðborgarsvæðinu. Þetta þýðir að börn og ungmenni á minni búsetusvæðum þar sem atvinnulíf er fábreyttara þekkja ef til vill færri störf og áhugi þeirra kemur því fram á færri áhugasviðum en áhugi þeirra sem búa við fjölbreyttara atvinnulíf. Önnur ástæða gæti verið jákvæð fylgni starfsþekkingar og starfsáhuga og birtist meðal annars í því að börn og ungmenni í dreifbýli og sjávarþorpum virðast hafa dýpri þekkingu og reynslu af þeim störfum sem eru einkennandi fyrir þessi svæði því þau tengjast oft menningu svæðanna sterkum böndum.

Þessar niðurstöður sýna að þekking og reynsla af störfum hafa áhrif á starfsáhuga barna og unglinga. Því er mikilvægt að bjóða upp á og efla náms- og starfsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum. Kynna þarf nemendum fjölbreytt störf og sjá til þess að þeir kynnist störfum óháð því hvort þau er að finna í heimabyggð þeirra eða ekki.

Heimildir:

Búseta og áhugi: Starfsáhugi íslenskra ungmenna eftir búsetu á uppvaxtarárum / Arnheiður Dögg Einarsdóttir

Habitus unglinga á tveimur ólíkum búsetusvæðum Áhrif á hugmyndir um framtíðarstörf og virðingu fyrir störfum / Helga Tryggvadóttir