Niðurstöður könnunarinnar Teiknaðu framtíðina sem borist hafa hingað til sýna að nemendur eiga sér einsleita drauma um framtíðarstörf. Þrjú vinsælustu störfin eru tæplega einn fjórði af öllum störfum sem nemendur nefndu en nemendur áttu sér oftast draum um að verða atvinnufólk í fótbolta (um 13%), atvinnufólk í körfubolta (um 6%) og lögregluþjónar (um 5%). Niðurstöðurnar sýna jafnframt skýran mun milli kynjanna en strákar leita frekar í störf sem þykja dæmigerð fyrir karlmenn og stelpur velja sér störf þar sem konur eru í meirihluta.
Könnun fyrir öll stig grunnskóla
Teiknaðu framtíðina er annar hluti könnunarinnar Okkar framtíð sem ætluð er öllum nemendum grunnskóla á Íslandi. Teiknaðu framtíðina er ætluð börnum í 1.-7. bekk og felst í því að þau teikna myndir af draumastörfum sínum og svara stuttum spurningum út frá teikningunum. Hinn hluti könnunarinnar kallast Þín rödd og felst í rafrænni könnun sem sniðin er að nemendum í 8.-10. bekk. Í henni svara nemendur spurningum um draumastörf sín, væntingar til framtíðarinnar og segja frá málefnum sem þeim þykja mikilvæg.
Markmið Teiknaðu framtíðina er að kynnast draumastörfum barna á aldrinum 6 til 12 ára, sjá hverjar fyrirmyndir þeirra eru og væntingar um framtíðina og jafnframt að fá innsýn í álit þeirra á námi og skóla. Öllum grunnskólum á landinu hefur verið boðin þátttaka en markmiðið er að ná til allra nemenda á yngsta stigi og miðstigi.
Öll störf sem nemendur teikna eru flokkuð í 17 flokka eftir sama kerfi og notast er við á vefnum Næsta skref sem Miðstöð menntunar og skólaþjónustu hefur umsjón með. Til að skoða megi kynjaskiptingu milli draumastarfa eru nemendur beðnir um að tilgreina kyn sitt – drengur, stúlka eða stálp – en einnig má nota möguleikann „Vil ekki segja“. Auk þess tilgreindu sumir nemenda ekki kyn sitt.
Flest vilja verða atvinnufólk í íþróttum
Langflestir nemenda, eða um 37% völdu störf sem falla undir flokkinn „listir og afþreying“ en undir hann heyra fjölbreytt störf á borð við atvinnumennsku í íþróttum, íþróttafræðingur og rafíþróttafólk, skapandi störf eins og fatahönnuður, leikari, rithöfundur og dansari en einnig áhrifavaldur, arkitekt og viðburðastjóri. Næsti flokkur þar á eftir er „umhverfi og landbúnaður“ en þar var dýralæknir vinsælasta starfið. Í þriðja sæti er flokkurinn „kennsla, tómstundir og uppeldi“ en í honum var kennari algengasta starfið. Flokkurinn „löggæsla og öryggismál“ var fjórði algengasti flokkurinn en um 6% nemenda sáu fyrir sér framtíðarstörf innan hans. Var þar starf lögregluþjóna algengast og sem fyrr segir meðal vinsælustu starfanna.
Þrír lægstu flokkarnir voru „málm- og véltækni“ en einungis fjórir sáu fyrir sér að vinna á því sviði; „fjölmiðlar og upplýsingamiðlun“ en aðeins einn nemenda sá fyrir sér starf innan hans og var ósk hans að verða blaðberi. Óvinsælasti flokkurinn var „ferðaþjónusta“ en enginn valdi sér starf innan hans.

Draumastörf nemenda á skjön við þarfir samfélagsins
Þetta sýnir að draumastörf nemenda eru að mörgu leyti á skjön við þarfir samfélagsins ef halda á uppi starfsgreinum innan þriggja óvinsælustu flokkanna. Í þessu samhengi mætti einnig nefna flokkana „heilbrigðisþjónustu“ og „rafiðnað- og tölvutækni“ en um 6% nemenda völdu störf innan þess fyrrnefnda en einungis 2% innan þess síðarnefnda. Áhugi nemenda á þessum tveimur flokkum endurspeglar því ekki þörf samfélagsins á fagmenntuðu fólki innan heilbrigðisgeirans og mikla eftirspurn eftir tölvunarfræðingum, forriturum, rafvirkjum og öðru fagfólki.
Skýr munur milli kynjanna
Stúlkur vildu miklu fremur starfa við kennslu, tómstundir og uppeldi en drengir. Sem dæmi eru stúlkur 53% þeirra sem vilja verða kennarar, strákar 27% og þeir nemendur sem tilgreindu ekki kyn sitt 20%. Aðeins stúlkur og nemendur sem tilgreindu ekki kyn sitt óskuðu sér að gerast leikskólakennarar og dagforeldrar. Einnig var mun algengara að stúlkur ættu sér draumastarf innan umhverfis og landbúnaðar. Dýralæknir var vinsælasta starfið í þeim flokki en stúlkur voru 80% þeirra sem vildu verða dýralæknar, drengir 10% og þau sem ekki tilgreindu kyn sitt 10%. Einungis drengir áttu sér draumastarf innan rafiðnaðar- og tölvutækni en af þeim sem völdu starf innan heilbrigðisþjónustu voru 79% stúlkur, 10% strákar og 10% þau sem vildu ekki segja til um kyn eða tilgreindu það ekki.

Þörf fyrir aukna náms- og starfsfræðslu
Það er þó mikilvægt að hafa í huga að niðurstöðurnar endurspegla aðeins hluta nemenda á yngsta stigi og miðstigi í grunnskólum á Íslandi. Það er því bæði fróðlegt og nauðsynlegt að fá enn fleiri nemendur til að skila inn teikningum sínum svo heildarmynd okkar af draumastörfum barna á Íslandi verði sem skýrust. Niðurstöðurnar sýna jafnframt augljósa þörf á aukinni náms- og starfsfræðslu í grunnskólum til að kynna nemendum fjölbreytt störf á öllum sviðum atvinnulífsins og gera þeim þannig kleift að sjá alla þá flóru starfa sem í boði eru í framtíðinni.