Við óskum ykkur gleðilegs árs og þökkum um leið fyrir það liðna. Við hjá Stækkaðu framtíðina erum afar þakklát fyrir frábærar viðtökur og áhugann sem verkefninu hefur verið sýndur.
Það gerðist margt spennandi hjá Stækkaðu framtíðina á nýliðnu ári:
- Verkefnið var formlega sett af stað 29. febrúar af Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu og Mennta- og barnamálaráðuneytinu.
- Við fórum í prufuheimsóknir í skóla um allt land í apríl og maí og fengum virkilega góðar viðtökur.
- Við fengum einnig frábærar viðtökur frá fólki úr atvinnulífinu en fljótlega höfðu um 900 sjálfboðaliðar skráð sig til leiks.
- Í október settum við í loftið nýjan vef og vefgátt sem gerir skólum og sjálfboðaliðum kleift að tengjast og skipuleggja heimsóknir á auðveldan og þægilegan hátt.
- Fyrstu heimsóknir sjálfboðaliða fóru af stað í nóvember og desember.
Mörg spennandi verkefni framundan
Við hlökkum einnig mikið til nýja ársins enda eru mörg skemmtileg verkefni framundan. Þar ber helst að nefna næsta skref Stækkaðu framtíðina, verkefnið Okkar framtíð. Það felur í sér að kanna væntingar barna til framtíðarinnar, þar á meðal drauma þeirra um starfsframa og menntun. Einnig verða skoðuð áhrif skóla, fjölskyldu, búsetu og samfélagsmiðla á framtíðarsýn þeirra.
Könnunin verður send til allra grunnskóla á landinu og er markmið okkar að ná til allra barna í 1.-10. bekk. Með þessu vonumst við til þess að safna mikilvægum upplýsingum sem varpa ljósi á hvað það er sem skiptir börn og ungmenni mestu máli þegar þau horfa til framtíðar. Með könnuninni verður Ísland fyrsta landið til að safna svörum nemenda af öllum stigum grunnskóla. Niðurstöðurnar munu veita mikilvæga innsýn í framtíðarsýn unga fólksins, gagnast við stefnumótun í menntamálum og styðja vinnumarkaðinn í að mæta starfsvæntingum þeirra. Með niðurstöðunum má bera saman væntingar barna og ungmenna við framtíðaratvinnuþróun og skoða málefni eins og heilsu, fjölskyldu, jafnrétti og samfélagslegar áskoranir. Niðurstöðurnar verða kynntar opinberlega ásamt sýningu á teikningum, textum og myndböndum nemenda.
Heimsóknir sjálfboðaliða á fulla ferð
Við stefnum einnig að því að fara á fulla ferð með heimsóknir sjálfboðaliða út um allt land og við hvetjum því kennara og starfsfólk skólanna til að bjóða sjálfboðaliðum í heimsókn og fólk af vinnumarkaði að gerast sjálfboðaliðar. Á vefgáttinni okkar má finna hugmyndir að mismunandi heimsóknum ásamt upplýsingum og leiðbeiningum. Heimsóknir sjálfboðaliða veita einstakt tækifæri til að fræða nemendur um vinnumarkaðinn, hvetja þá og veita þeim innblástur.