Kæru sjálfboðaliðar, starfsfólk skólanna og allir sem stutt hafa Stækkaðu framtíðina með einum eða öðrum hætti, innilegar þakkir fyrir samstarfið á árinu. Það er ykkur að þakka að nemendur kynnist allri þeirri flóru starfa sem bíður þeirra í framtíðinni og sjái að það er ekki aðeins ein leið að ákveðnu starfi heldur margar þar sem styrkleikar hvers og eins fá að njóta sín.
Áhrif heimsókna sjálfboðaliða í kennslustundir sjást víða. Sem dæmi skrifaði kennari til okkar eftirfarandi umsögn eftir heimsókn sjálfboðaliða í unglingadeild í haust:
„Sjálfboðaliðinn deildi með nemendum fjölbreyttri starfs- og lífsreynslu, meðal annars hvernig hann fór „öfuga leið“ með því að stofna fjölskyldu áður en hann hóf háskólanám. Hann sagði frá sínum fyrstu störfum, hvernig reynsla úr starfi í matvöruverslun hjálpaði honum síðar í námi, hvernig ólík verkefni geta tengst óvænt og hvernig áhugi á tölvum varð til þess að hann endaði á að fá starf í tölvudeild. Hann lagði áherslu á að tækifæri spretti oft upp á óvæntum stöðum, mikilvægi þess að skilja vel við þegar maður hættir í starfi, setja mörk, forðast kulnun og velja sér starf þar sem manni líður vel. Að lokum ræddi hann um hversu fjölbreytt, krefjandi og skemmtilegt starfið hans væri. Hann var einlægur, hvetjandi og náði vel til nemenda. Við þökkum honum kærlega fyrir komuna.“
Ný vefgátt og samstarfsskólar
Árið hefur verið bæði viðburðaríkt og skemmtilegt. Stækkaðu framtíðina hélt áfram að vaxa og dafna með fjölda kynninga á verkefninu og heimsóknum sjálfboðaliða í kennslustundir. Tvennt stóð upp úr á árinu:
- Við hófum samstarf við þrjá skóla um þróun á nokkurs konar viðurkenningu sem við kjósum að kalla „Stækkaðu framtíðina skóli“. Við þökkum Langholtsskóla og Vesturbæjarskóla í Reykjavík og Árskóla á Sauðárkróki kærlega fyrir þetta samstarf í haust og sendum jafnframt okkar bestu þakkir til allra þeirra skóla sem tekið hafa þátt í Stækkaðu framtíðina hingað til. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs á komandi ári.
- Í haust settum við í loftið nýja og endurbætta vefgátt. Við vonum að hún hafi auðveldað bæði starfsfólki skólanna og sjálfboðaliðum skipulag heimsókna og samskipti þeirra á milli. Þrátt fyrir það hafa einhverjir annmarkar verið á kerfinu en við viljum meina að þar hafi jólasveinarnir verið að stríða okkur og að allt verði komið í lag á nýju ári. Uppsetning slíks kerfis er umfangsmikið verkefni og við höfum, ásamt forriturunum okkar, unnið hörðum höndum að því að gera vefgáttina sem aðgengilegasta og þægilegasta í notkun. Við þökkum ykkur kærlega fyrir þolinmæðina.
Við leggjum ríka áherslu á stöðugar umbætur og tökum því öllum fyrirspurnum og ábendingum fagnandi. Hægt er að senda þær í gegnum vefgáttina eða með tölvupósti á [email protected].
Í haust fóru fram tugir heimsókna en við stefnum að því að gera enn betur á næstu önn við að kynna nemendum þau fjölbreyttu tækifæri sem bíða þeirra í framtíðinni. Við hvetjum því starfsfólk skólanna til að nýta allan þann mannauð sem finna má í gagnagrunninum okkar í vefgáttinni og bjóða sjálfboðaliðum í heimsókn. Einnig bendum við á hjálpargögnin þar sem finna má upplýsingar, leiðbeiningar og innblástur fyrir heimsóknir. Sjálfboðaliða hvetjum við til að fylgjast með vefgáttinni, sýna áhuga á viðburðum í sínum geira og svara boðum frá starfsfólki skólanna.
Við sendum ykkur hugheilar jólakveðjur og óskum ykkur farsældar á nýju ári.