Kynjamunur meðal íslenskra unglinga og ungmenna við 15-24 ára aldur er áberandi þegar kemur að áhuga og væntingum og náms- og starfsvali þeirra. Kynbundin félagsmótun hefur mikil áhrif á náms- og starfsval og draumastörf ungmenna en algengt er að drengir velji sér störf sem hafa karllæga staðalímynd og að stúlkur velji sér störf sem teljast kvenleg. Erlendar rannsóknir hafa jafnframt sýnt fram á að unglingar sem áttu sér draumastörf sem voru í mótsögn við kynímynd þeirra breyttu draumastörfum sínum svo þau pössuðu kyni þeirra betur.
Draumastörf eru unnin af fólki af sama kyni
Samkvæmt kenningum John L. Holland má flokka störf á vinnumarkaðnum í sex svið sem tengja má við áhuga einstaklinga. Þessi svið eru handverkssvið (e. realistic), vísindasvið (e. investigative), listasvið (artistic), félagssvið (social), athafnasvið (e. enterprising) og skipulagssvið (e. conventional). Samkvæmt íslenskri rannsókn frá 2018 er kynjamunur milli drengja og stúlkna á þessum sex áhugasviðum nokkuð stöðugur milli aldurshópa, þ.e. nemenda í grunn-, framhalds- og háskólum. Kynjamismunurinn virðist þó dragast saman milli 22 og 24 ára aldurs og er það í samræmi við niðurstöður annarra rannsókna sem gefa til kynna að kynjamunur í starfsáhuga minnki með hækkandi aldri.
Á aldrinum 16-24 ára höfðu drengir meiri áhuga á handverkssviði heldur en stúlkur, einnig sýndu drengir meiri áhuga á vísindasviði þó munurinn þar væri minni. Stúlkur sýndu meiri áhuga á listasviði við 16–18 ára aldur en við 22 ára aldur höfðu drengir meiri áhuga á því sviði. Við 24 ára aldur var áhugi kynjanna hins vegar jafn. Stúlkur hafa talsvert meiri áhuga á félagssviði og mælist hann hæstur við 18 ára aldur. Lítill kynjamunur var á athafnasviði þó að drengir sýndu þar örlítið meiri áhuga. Drengir sýndu einnig meiri áhuga á skipulagssviði en við 24 ára aldur hafði munur milli kynjanna minnkað verulega.
Mismunandi áhugasvið kynjanna hafa áhrif á hugmyndir þeirra um draumastörf. Draumastörf stúlkna eru oftar á sviði fræðslustarfsemi og heilbrigðis- og félagsþjónustu sem er í samræmi við þá hugmynd að félagsmótun innræti stúlkum meiri umhyggju- og umönnunareiginleika en drengjum sem leiðir til þess að þær sækja frekar í störf sem krefjast þessara eiginleika og hafa kvenlæga staðalímynd. Drengir velja hins vegar frekar störf sem hafa karllæga staðalímynd. Þetta er í samræmi við erlendar rannsóknir sem sýna að stúlkur og drengir eigi sér draumastörf sem unnin eru af sama kyni og að höfuðmáli skiptir þegar ungmenni velja sér störf að þau samræmist þeirra kynhlutverkum. Kringum 14 ára aldur hafa unglingar afmarkað sig að mestu leyti frá þeim störfum sem þeir telja ekki henta sínu kyni en einnig hefur verið sýnt fram á að börn læra frá unga aldri hvaða störf eru viðeigandi fyrir kyn þeirra og það afmarkar val þeirra á störfum í framtíðinni.
Drengir hafa kynjaðri hugmyndir um störf en stúlkur
Í sömu rannsókn kemur fram að drengir hafi kynjaðri hugmyndir um draumastörf en stúlkur. Mikilvægara er fyrir karla en konur að starf þeirra samræmist kynhlutverki þeirra og drengir hafa minni áhuga á kvenlægum störfum en stúlkur hafa á störfum sem teljast karllæg. Þá virðast drengir óviljugir til að ganga gegn staðalímynd sinni og gera eitthvað sem gæti veikt kynímynd þeirra. Á móti virðast stúlkur hafa minni áhyggjur af því.
Íslensk ungmenni hafa því tileinkað sér kynbundna hugsun um störf sem kemur meðal annars til vegna kynbundinnar félagsmótunar sem hefst við fæðingu þar sem stúlkum og drengjum er kennd viðeigandi hegðun með tilliti til kyns. Kynjaður áhugi og væntingar leiða síðan til þess að ungmenni velja sér nám og síðar meir störf á vinnumarkaði sem eru dæmigerð fyrir þeirra kyn.
Vinna má gegn kynjuðum hugmyndum með náms- og starfsfræðslu
Félagsmótunaraðilar barna og ungmenna bera mikla ábyrgð á að takmarka ekki tækifæri þeirra í námi og störfum með kynjuðu uppeldi og rótgrónum hugmyndum um kynhlutverk. Því er mikilvægt að finna leiðir til að hafa áhrif á viðhorf barna og ungmenna til mismunandi starfa og hvetja þarf öll kyn til að fylgja áhugasviði sínu og fara sínar eigin leiðir í náms- og starfsvali.
Í þessu samhengi getur fræðsla leikið lykilhlutverk, en aukin náms- og starfsfræðsla getur minnkað líkurnar fordómum í náms- og starfsvali. Því skiptir máli að byrja snemma með markvissa náms- og starfsfræðslu í grunnskólum sem tekur mið af jafnréttissjónarmiðum. Þannig má kynna börn og unglinga fyrir ólíkum störfum á vinnumarkaði og kveikja áhuga þeirra á námi eða starfi sem þeim hefði jafnvel ekki dottið í hug að skoða. Jákvæðar fyrirmyndir og upplifun af starfi geta haft áhrif á áhuga og starfsval einstaklinga. Þegar börn og unglingar sjá fólk sinna störfum og hlutverkum sem falla ekki undir hefðbundin kynhlutverk má breyta hugmyndum þeirra um viðeigandi hegðun kynjanna og um leið víkka út sjóndeildarhring þeirra um möguleika framtíðarinnar.
Heimild:
Kynjaður veruleiki og væntingar til starfa. Þróun kynjamunar í starfsáhuga, draumastörfum og starfsreynslu á ungdómsárum / Gréta Björk Guðráðsdóttir