Mikilvægt að bjóða upp á náms- og starfsfræðslu á yngri stigum grunnskóla

Mikilvægt er að byrja snemma að vekja athygli barna á störfum svo þau þrói með sér vitund um þau, átti sig á styrkleikum sínum og tengi þá við ákveðin störf. Náms- og starfsfræðsla fer að mestu leyti fram á unglingastigi í þeim grunnskólum þar sem hún er í boði en breskar og íslenskar rannsóknir sýna að kostir þess að efla náms- og starfsráðgjöf á yngri stigum grunnskóla geta verið miklir.

Framtíðaráætlanir barna oft þröngar

Breskar rannsóknir sem náðu til um 10.000 skólabarna á yngsta stigi og miðstigi sýna að börn niður í allt að fimm ára eru byrjuð að mynda sér staðalímyndir um störf. Þessar staðalímyndir birtast meðal annars út frá kyni, uppruna og félagslegum bakgrunni en flest börn byggja þær á fjölskyldumeðlimum, vinum og því sem þau sjá í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Einnig má sjá að framtíðaráætlanir barna eru oft þröngar og úr takti við framboð á vinnumarkaðinum. Þær haldast að miklu leyti óbreyttar fram til 17 eða 18 ára aldurs og leiða til þess að þegar ungt fólk fer út á vinnumarkaðinn þarf það að aðlagast hratt og breyta væntingum sínum og stefnu.

Rannsóknir á áhrifum skólaheimsókna fólks af vinnumarkaði sýna að vinna megi gegn þessu með því að kynna börn fyrir fjölbreyttum fyrirmyndum af vinnumarkaði strax á yngsta stigi og miðstigi í grunnskóla. Með því má eyða staðalímyndum og auka sjálfsöryggi barna og jákvæðni þeirra og metnað gagnvart náminu.

Aukin fræðsla ýtir undir sjálfstæðar ákvarðanir

Íslenskar rannsóknir á náms- og starfsráðgjöf sýna að hún er takmörkuð á yngsta stigi og miðstigi en að í mörgum tilfellum sinna kennarar henni ómarkvisst og án þess að flokka fræðsluna undir náms- og starfsráðgjöf. Því er þörf á að móta markvissa stefnu og koma náms- og starfsfræðslu betur inn í aðalnámskrá. Einnig þarf að bæta aðgengi að námsefni og gera það fjölbreyttara ásamt því að hefja náms- og starfsfræðslu strax við upphaf skólagöngu.

Einn af kostum þess að efla náms- og starfsfræðslu á yngri stigum grunnskóla er sá að nemendur sem hafa fengið slíka fræðslu yfir lengri tíma byggja val sitt á framhaldsnámi á námsleið frekar en á skóla. Þetta bendir til þess að fræðslan skili sér í því að nemendur ígrundi val sitt vel og taki sjálfstæðar ákvarðanir eftir eigin áhuga og styrkleikum. Þetta á ekki aðeins við um val á framhaldsnámi heldur getur fylgt nemendum áfram út lífið. Náms- og starfsfræðsla snýr þó ekki eingöngu að kynningu á hinum ótalmörgu náms- og starfskostum sem nemendum standa til boða í framtíðinni heldur einnig vinnu við þætti í fari nemenda eins og sjálfsmynd og sjálfsþekkingu, áhuga, styrkleika og veikleika.

Efla þarf náms- og starfsráðgjöf í grunnskólum

Rannsóknir sem gerðar hafa verið á leikskólabörnum sýna að hugmyndir barna um störf verða raunsæjar á þegar á síðasta ári í leikskóla. Það er svo á miðstigi í grunnskóla að börn eru farin að velta fyrir sér framtíðarstörfum. Þetta ýtir undir mikilvægi þess að hefja náms- og starfsfræðslu strax við upphaf grunnskóla og að hún verði kennd með markvissum hætti að lokum hans. Starfskynningar fyrir börn á miðstigi henta afar vel því á þeim aldri (1012 ára) eru nemendur með opinn hug og eiga því auðvelt með að ræða um nám og störf út frá fjölbreyttum sjónarhornum.

Í grundvallaratriðum er spurningin ekki sú hvort náms- og starfsráðgjöf eigi að hefjast á yngri stigum grunnskóla því vitað er að börn á þeim aldri eru þegar farin að færa störf inn í leikina sína, tala um þau og hugsa. Spurningin er því sú hvort hægt sé að styðja við börn með markvissri náms- og starfsráðgjöf í strax við upphaf skólagöngunnar.

Heimildir:

Starting Early: Building the foundations for success / Education and Employers

Náms- og starfsfræðsla á yngri stigum grunnskólans / Auður Huld Kristjánsdóttir