Sara Brynjólfsdóttir er einn af tæplega 900 sjálfboðaliðum hjá Stækkaðu framtíðina. Sara starfar sem hugbúnaðarsérfræðingur hjá Íslandsbanka og hefur hingað til farið í tvær heimsóknir þar sem hún fékk nemendur til að hakka sig inn í gervibanka og stela þar peningum.
Ætlaði sér aldrei að verða forritari
Sara ætlaði sér aldrei að verða forritari og var á hagfræðibraut í Menntaskólanum við Sund. „Ég ætlaði í háskólanám tengt hagfræðinni og fór í viðskiptafræði í HR.“ Hún ákvað að bæta við sig tölvunarfræði sem aukagrein til þess að hafa ákveðna sérstöðu eftir námið. „Ég hafði svo gaman af tölvunarfræðiáföngunum að ég bætti við mig tölvunarfræði líka og útskrifaðist með tvöfalda BS-gráðu í viðskiptafræði og tölvunarfræði.
Sara hafði alltaf haldið að nám í tölvunarfræði væri ekki fyrir hana þar sem hún hafði lítinn áhuga á tölvum eða tölvuleikjum. „Mér fannst ég passa illa við þá staðalímynd sem ég hafði á forriturum.“ Upplifun hennar af tölvunarfræðinni varð þó allt önnur og helstu fyrirmyndir hennar voru vinkonur hennar í náminu. „Þær drifu mig áfram,“ segir hún.
Sara sér ekki eftir því að hafa bætt tölvunarfræðinni við nám sitt í HR og er mjög ánægð í starfi sínu í dag hjá Íslandsbanka en hún starfar sem hugbúnaðarsérfræðingur í markaðs- og verðbréfalausnum og forritar fyrir app Íslandsbanka og netbanka. „Ég myndi svo sannarlega mæla með starfinu mínu, engin dagur er eins. Það er svo gaman að fá að þróa nýja hluti og sjá hugmyndir verða að veruleika.“
Stelpur og skvísur geta líka verið forritarar
Aðspurð um hvað hún myndi ráðleggja krökkum eða ungmennum og þá sérstaklega stelpum sem vilja verða forritarar segir Sara að mikilvægt sé að taka af skarið og vera ekki feimnar. „Ég ákvað einmitt að gerast sjálfboðaliði fyrir Stækkaðu framtíðina því mig langar að fá fleiri stelpur í tölvunarfræði og brjóta niður þá staðalímynd sem er á forriturum.“
Sem fyrr segir hefur Sara farið í tvær heimsóknir hingað til en í fyrri heimsókn sinni hitti hún hóp af stelpum í 7. bekk sem voru að læra um forritun. „Það var mjög gefandi að fá að hitta svona áhugasamar og kraftmiklar stelpur sem hafa framtíðina fyrir sér og gefa þeim innsýn í starf forritara í banka og opna augu þeirra fyrir því að stelpur og skvísur geta líka verið forritarar. Það eru ekki bara þeir sem passa inn í staðalímyndir sem henta í starfið. Stelpurnar voru áhugasamar og höfðu gaman af litlu forritunarverkefni sem við gerðum og voru með skemmtilegar spurningar,“ segir Sara og bætir við: „Mér finnst þetta frábært verkefni og gaman að vera partur af því.“
Vilt þú gerast sjálfboðaliði eða fá sjálfboðaliða í heimsókn í skólann þinn?