Sjálfboðaliðar af vinnumarkaði segja að sjálfboðastarfið hafi jákvæð áhrif á vellíðan þeirra, þeir finna meiri tilgang og drifkraft bæði innan vinnu og utan, og eru ánægðari með vinnuveitanda sinn og starf. Þetta kemur fram í rannsókn sem gerð var af bresku samtökunum Education and Employers en þau standa á bakvið Inspiring the Future, fyrirmyndar Stækkaðu framtíðina í Bretlandi. Rannsóknin var unnin milli 2018 og 2019 og náði til rúmlega 1.000 sjálfboðaliða sem gefið hafa tíma sinn til Inspiring the Future síðan verkefnið hófst árið 2009.
Meiri starfsánægja og meiri drifkraftur innan og utan vinnu
Um er að ræða sjálfboðaliða sem hafa heimsótt skóla og sagt nemendum frá starfi sínu og vegferð í ýmis konar heimsóknum fyrir nemendur á öllum aldri; til dæmis skólastofuspjalli, starfamessum og þjálfun í atvinnuviðtölum. 62% svarenda sögðust finna fyrir meiri tilgangi í vinnunni eftir að hafa gerst sjálfboðaliðar, 88% sögðust finna fyrir meiri drifkrafti í daglegu lífi utan vinnu og 77% höfðu meiri drifkraft í vinnu. 49% þeirra sögðust finna fyrir meiri ánægju í starfi og voru jafnframt ánægðari með vinnuveitanda sinn.
Að sama skapi fundu þeir sjálfboðaliðar sem gáfu meira af tíma sínum fyrir meiri drifkrafti í vinnunni. 55% þeirra sem unnu sem sjálfboðaliðar sem nemur meira en 10 dögum á ári sögðust finna fyrir miklum áhrifum á drifkraft í vinnu á móti 32% þeirra sem gáfu um 4 klukkustundir af tíma sínum á ári. Þessi fylgni er oft lítil en þó tölfræðilega marktæk og helst óbreytt jafnvel þegar tekið er tillit til bakgrunnsþátta, svo sem aldurs, kyns, búsetu og starfsaldurs.
Stuðningur vinnuveitenda skiptir máli
Eftir því sem sjálfboðaliðar fundu fyrir meiri stuðningi af hálfu vinnuveitenda, þeim mun meiri ávinning sögðust þeir hafa upplifað á áðurnefndum sviðum. Hið sama á við þegar sjálfboðaliðar sinntu sjálfboðastarfinu á vinnutíma. 62% sjálfboðaliða sögðu að sjálfboðastarfið veitti þeim meiri ánægju í starfi þegar vinnuveitendur sóttust eftir tækifærum til sjálfboðavinnu fyrir starfsmenn sína. Til samanburðar sögðust 40% sjálfboðaliða finna fyrir aukinni ánægju í starfi þegar vinnuveitandi þeirra vissi af sjálfboðastarfinu en veitti einungis óbeinan stuðning. Margir sjálfboðaliðanna hjá Inspiring the Future töluðu jafnframt vel um vinnuveitendur sína. Minna en 1% þeirra fannst vinnuveitendur letja þá eða halda aftur af þeim við sjálfboðastörfin en 46% sjálfboðaliða sögðust finna fyrir miklum stuðningi.
Heimild: