Stækkaðu framtíðina opnar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kynntu í dag verkefnið Stækkaðu framtíðina. Verkefnið hefur það að markmiði að víkka sjóndeildarhring nemenda og gefa öllum ungmennum á Íslandi tækifæri til að eiga fjölbreyttar fyrirmyndir. Er það gert með því að tengja alls konar fólk af vinnumarkaði við skólastofur landsins þar sem það segir nemendum frá starfi sínu og menntun.

Tilgangur Stækkaðu framtíðina er að opna augu barna og ungmenna fyrir þeim tækifærum sem framtíðin hefur upp á að bjóða og auka þannig áhuga þeirra á námi auk þess að ýta undir að þau sjái tilgang með náminu. Verkefnið miðar að því að öll börn og ungmenni sjái þá möguleika sem þeim standa til boða, óháð bakgrunni eða búsetu, fái tækifæri til að kynnast ólíkum störfum og heyra sögur frá fólki af vinnumarkaðinum og upplifi aukinn áhuga á námi og tækifærum framtíðarinnar.

,,Börn geta ekki orðið það sem þau sjá ekki – þess vegna þurfum við öll að taka þátt í að stækka framtíðina, sýna þeim möguleikana og hvetja þau áfram. Við þurfum að virkja áhugann á nýjum viðfangsefnum og framtíðaráskorunum til að auka líkurnar á því að ungt fólk tileinki sér nýja færni og sé opið fyrir störfum sem það þekkir ekki og eru jafnvel ekki til núna,” segir Áslaug Arna.

 „Þegar börn og ungt fólk byrjar að horfa til framtíðar og sjá hana fyrir sér hafa þau gjarnan takmarkaða innsýn í þá breiðu flóru starfa sem í boði eru. Það er hagur okkar allra að börn geti fundið sig og mátað sig við sem flest, haft raunverulegt val um framtíðina og blómstrað á eigin forsendum. Mig langar því að hvetja sem allra flest til að taka þátt í þessu með okkur!“ segir Ásmundur Einar.

Fjölbreyttir sjálfboðaliðar fyrir fjölbreyttan hóp nemenda

Á kynningarfundi um verkefnið í dag hvöttu Áslaug Arna og Ásmundur Einar fólk á vinnumarkaði til að taka þátt í að stækka framtíðina. Þátttaka í verkefninu er einföld. Hægt er að skrá sig sem sjálfboðaliða á heimasíðu verkefnisins – stækkaðuframtíðina.is. Þar er hægt að velja hversu margar heimsóknir í skóla sjálfboðaliði hefur tök á – allt eftir tíma og áhuga. Ein heimsókn í kennslustund á ári er nóg til að vera með í að stækka framtíðina.

Öll sem tilbúin eru til að stækka framtíð ungmenna með því að segja frá námi sínu og störfum eru hvött til að skrá sig. Það þarf fjölbreyttan hóp fólks fyrir fjölbreyttan hóp nemenda og ekki er gerð krafa um að sjálfboðaliðar séu í stjórnendastöðu  á sínum vinnustað.

Kennarar í grunn- og framhaldsskólum landsins fá aðgang að gagnagrunni verkefnisins til að finna réttu manneskjuna til að bjóða í sína kennslustund. Heimsóknir sjálfboðaliða í skóla um landið allt hefjast í haust.

https://youtube.com/watch?v=MPz0U8dymso%3Fsi%3Dh-JXqH_1VYbrX5hI

Vertu fyrirmyndin sem þú hefðir þurft!

Þegar ungmenni velja sér menntun og störf hafa fyrirmyndir í þeirra nærumhverfi mikil áhrif. Til að öll börn geti fundið menntun og framtíðarstörf þar sem þau blómstra þurfa þau því að kynnast ólíkum leiðum að námi og störfum frá fjölbreyttum hópi fólks.

Sumir krakkar þurfa fyrirmynd með svipaðan bakgrunn og þau, t.d. úr sama bæjarfélaga eða af sama uppruna eða kyni, og aðrir þurfa að hitta einhvern sem starfar við eitthvað sem þau vissu ekki einu sinni að væri raunhæfur möguleiki. Það eru forréttindi að eiga fjölbreyttar fyrirmyndir og saman veitum við öllum börnum á Íslandi þau forréttindi.

12 ára reynsla frá Bretlandi

Stækkaðu framtíðina er íslensk útgáfa af verkefninu Inspiring the Future sem hóf göngu sína árið 2012 í Bretlandi. Síðan þá hafa um 52 þúsund sjálfboðaliðar tekið þátt í verkefninu með frábærum árangri. Verkefninu er einnig haldið úti í Ástralíu, Nýja Sjálandi og Sviss. NýMennt (Nýsköpun og Menntasamfélag á Menntavísindasviði HÍ) heldur utan um verkefnið hér á landi en það var sett á laggirnar af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu og mennta- og barnamálaráðuneytinu.

Bein útsending frá blaðamannafundinum í dag: https://www.visir.is/g/20242536197d/bein-ut-sending-staekkadu-fram-tidina